Um hita­veituna

Veitur reka þrettán hitaveitur; eina á höfuðborgarsvæðinu sem er sú stærsta, fimm á Vesturlandi og sjö á Suðurlandi. Hitaveiturnar þjóna um 65% þjóðarinnar.

Höfuðborgarsvæðið

Lághitasvæðin í Laugarnesi, Elliðaárdal og Reykjahlíð og virkjanirnar tvær, Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun, sjá íbúum á höfuðborgarsvæðinu fyrir heitu vatni. Aukin vinnsla heits vatns í virkjunum hefur gert það kleift að létta tímabundið á vinnslu úr lághitasvæðunum í Reykjavík en þannig má safna forða fyrir aukna notkun á veturna.

Stefnt er að því að auka hlut heits vatns frá virkjunum þannig að hægt verði að nýta jarðhitasvæði á sjálfbæran hátt um fyrirsjáanlega framtíð. Samhliða því er lögð áhersla á það í framtíðaráætlunum hitaveitu að bæta nýtingu á heitu vatni og fullnýta orkustrauma.

Suður- og Vesturland

Ástand flestra lághitasvæða á Suður- og Vesturlandi er gott en þó eru undantekningar þar á. Afla þarf meira heits vatns fyrir Rangárveitur, sem þjóna m.a. þéttbýliskjörnunum Hellu og Hvolsvelli, og unnið er að bættri vatns- og gufuöflun í Hveragerði.

Dreifikerfi hitaveitunnar

Heita vatnið kemur úr borholum á höfuðborgarsvæðinu og úr virkjunum á Hellisheiði og Nesjavöllum.

Vatninu úr borholunum er dælt í dælustöðvar og þaðan annað hvort beint til viðskiptavina eða í hitaveitutanka þar sem það hefur viðkomu áður en því er dælt til heimila og fyrirtækja.

Heita vatninu frá virkjunum er dælt í hitaveitutanka á Reynisvatnsheiði áður en það fer til viðskiptavina. Hluti hitaveitukerfisins er uppbyggður þannig að frá notendum rennur vatn sem búið er að nýta til húshitunar til baka í dælustöð. Þar er það notað til að kæla vatnið sem kemur úr borholum eða frá virkjunum en það er oft mjög heitt og kæla þarf það niður í um 80°C.

Uppruni heita vatnsins

Heita vatnið sem notað er á höfuðborgarsvæðinu kemur annars vegar frá lághitasvæðum í Mosfellsbæ og Reykjavík (Laugarnesinu og Elliðaárdal) og hins vegar frá virkjunum á háhitasvæðum á Nesjavöllum og Hellisheiði.
Hér á árum áður var hvert hverfi höfuðborgarsvæðisins annað hvort með vatn frá lághitasvæðum eða virkjunum en nú er sífellt algengara að við færum hverfi af einni tegund vatns yfir á aðra, oft tímabundið ef það hentar vinnslunni. Yfirleitt er það gert til að hvíla borholur í Reykjavík svo rekstur þeirra verði eins sjálfbær og kostur er.

Helsti munur á innihaldi vatnsins sem kemur frá lághitasvæðum og virkjunum er magn kísils. Kísilríkt heitt vatn myndar hrúður sem sest á kranaop og víðar þegar það kólnar. Mest er af kísli í heita vatninu sem kemur úr borholunum á Laugarnesinu þar sem vatnið er heitast. Vatnið sem kemur frá Nesjavöllum og Hellisheiði er aftur á móti upphitað grunnvatn með litlu kísilmagni.

Hollráð fyrir heitt vatn

Hot pipe

Engir sófar fyrir framan ofna

Setjum ekki sófa fyrir framan ofna - það gæti blekkt hitaskynjara.

Lesa fleiri hollráð

Hvernig getum við aðstoðað þig?