Hlemm­torg, Reykjavík

.

Reykjavíkurborg og Veitur endurnýja innviði og endurskapa torgið

Hvað gerist næst?
Sumarið 2025 halda framkvæmdir við Hlemm áfram af fullum krafti. Áhersla verður lögð á að klára torghlutann, sem mun koma í framhaldi af núverandi framkvæmdum við Hlemm Mathöll. Þetta nýja og líflega torg nær upp að húsunum við Þverholt, meðfram Center Hotels, og afmarkast af Hverfisgötu að norðan.

Á svæðinu verður komið fyrir hinu sögufræga húsi Norðurpólnum sem áður var staðsett við Hverfisgötu 125. Einnig verður komið upp spennandi leiksvæði fyrir börn sem ber nafnið Hlemmur Leikhöll – stór og fjölbreytt leikgrind þar sem gleðin ræður ríkjum. Á torginu verður einnig svið sem mun bjóða upp á aðstöðu fyrir fjölda skemmtilegra viðburða og uppákoma.

Lagnir verða endurnýjaðar á svæðinu líkt og í fyrri áföngum en það verður minna í sniðum en í síðustu áföngum. Elstu lagnir á svæðinu eru frá því um 1920 og aðrar frá miðri síðustu öld. Það er því kjörið tækifæri að endurnýja þær til að tryggja íbúum og öðrum á svæðinu nauðsynlega innviði og lífsgæði til framtíðar.

Hvernig mun svæðið líta út?

Nýtt yfirborðsefni, setaðstaða, leik- og dvalarsvæði ásamt gróðri verða ríkjandi þættir á nýju Hlemmtorgi ásamt vistvænni nálgun á meðhöndlun yfirborðsvatns.

Reykjavíkurborg og Veitur standa fyrir framkvæmdunum. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að hagaðilar og íbúar verði ekki fyrir óþægindum, þótt það fylgi alltaf álag því að vera nálægt framkvæmdasvæði. Markmiðið er skýrt: betri borg og traustir innviðir.

Hlemmur litmynd


Hvernig getum við aðstoðað þig?