Fram­leiðsla rafmagns til eigin nota

Upplýsingar fyrir einstaklinga og smærri aðila um ör- og smávirkjanir, tengdar dreifikerfi

Örvirkjun

Örvirkjun er skilgreind sem raforkuframleiðsla með uppsett afl undir 12 kW (16 A) og er eingöngu ætluð til eigin nota.

Þau sem setja upp örvirkjanir hafa ekki heimild til þess að selja umframorku inn á dreifikerfið og þurfa því ekki að gera samning við raforkusala. Svokölluð innmötunargjöld eiga ekki við í þessum tilvikum.

Þó að um sé að ræða framleiðslu til eigin nota, er skylt að tilkynna uppsetningu til Veitna áður en  tenging fer fram. Þetta er fyrst og fremst gert til þess að gæta öryggis starfsfólks okkar. Aðeins löggiltir rafverktakar, skráðir hjá Húsnæðis- og mannvirkjunarstofnun (HMS), mega sjá um uppsetningu.

  • Ferlið við uppsetningu örvirkjana gagnvart Veitum

    1. Kynnið ykkur ferlið hjá Umhverfis- og orkustofnun

    2. Semjið við löggiltan rafverktaka sem ber ábyrgð á uppsetningu og því að farið sé eftir viðeigandi reglum 

    3. Rafverktaki tilkynnir um verkið til HMS 

    4. Tilkynnið uppsetningu örvirkjunar til Veitna með þeim upplýsingum sem eru tilgreindar hér fyrir neðan, með því að senda tölvupóst á veitur@veitur.is

Smávirkjun

Smávirkjun er skilgreind sem raforkuframleiðsla með uppsett afl á bilinu 12-100 kW, þar sem notandi hefur heimild til að selja umframorku inn á dreifikerfið. Til þess þarf að gera samning við raforkusala sem sér um að selja orku og greiða virkjunareiganda fyrir afhenta raforku. 

Áður en smávirkjun er tengd við dreifikerfið þarf að senda inn umsókn til Veitna, þar sem metið er hvort unnt sé að tengja virkjun við núverandi innviði, eða hvort ráðast þurfi í styrkingar eins og stækkun heimtaugar. 

Smávirkjanir greiða árlegt innmötunargjald samkvæmt gjaldskrá Veitna, sem er háð stærð virkjunar. Sjá verðskrá Veitna.

Á móti greiða Veitur þann ávinning sem sparast vegna minni úttektar frá Landsneti til virkjunaraðila. 

Ef um er að ræða virkjun upp að 100kW sem notar framleiðsluna nánast alfarið á staðnum, er möguleiki á heimild til að tengjast á sömu forsendum og örvirkjun. Eigandi virkjunar greiðir þá ekki árlegt innmötunargjald, og ekki er gerður samningur við raforkusala.

  • Ferlið við uppsetningu smávirkjana gagnvart Veitum

    1. Kynnið ykkur ferlið hjá Umhverfis- og orkustofnun

    2. Sendið umsókn til Veitna. Umsókn sendist á veitur@veitur.is og skal innihalda þær upplýsingar sem tilgreindar eru hér að neðan. Sömuleiðis skal taka fram hvort eigandi virkjunar hyggist selja raforku inn á dreifikerfið eða einungis framleiða raforku til eigin nota.  

    3. Semjið við löggiltan rafverktaka sem ber ábyrgð á uppsetningu og því að farið sé eftir viðeigandi reglum 

    4. Rafverktaki tilkynnir um verkið til HMS 

    5. Rafverktaki  fær vottun frá HMS. Þessi vottun þarf að liggja fyrir áður en spennusetning er heimiluð 

    6. Spennusetning framkvæmd eftir samkomulagi við Veitur 

Er heimilt að tengja virkjun yfir 100kW? 

Virkjanir með uppsett afl yfir 100 kW eru skoðaðar sérstaklega. Lágmarkskröfur eru þær sömu og fyrir smávirkjanir, en til viðbótar þarf að taka til greina hvort virkjun er samfasa eða ósamfasa, hvort nauðsynlegt sé að gera samrekstrarsamning og hvort Veitur geri kröfu um beinan aðgang að stýringu virkjunar úr stjórnstöð Veitna.

  • Upplýsingar sem þarf að skila með tilkynningu (á við um bæði örvirkjanir og smávirkjanir)

    1. Almennar upplýsingar  

    • Kennitala tengds mælis  
    • Heimilisfang tengistaðar  
    • Nafn og tengiliðaupplýsingar umsækjanda  
    • Nafn og tengiliðaupplýsingar löggilts rafverktaka sem ber ábyrgð á uppsetningu  

    2. Tæknilýsing búnaðar  

    • Frumorkugjafi (birtuorka, vindur) 
    • Staðfesting á að vinnslueining uppfylli ÍST EN 50549-1  
    • CE – merking búnaðar  
    • Heildarafköst (kW)  
    • Framleiðandi vinnslueiningar  
    • Rafhlöður: eru þær hluti af kerfinu? (Já/Nei) Ef já: Tegund, afkastageta og hvort þær séu tengdar út á netið  

    3. Tenging við dreifikerfi  

    • Einlínumynd (PDF) sem sýnir tengingu við innanhús- og dreifikerfi  
    • Spenna og fasi (1-fasi / 3-fasa)  

    4. Rekstur  

    • Væntanleg uppsetningardagsetning  

Hvernig getum við aðstoðað þig?